Raki og mygla í húsum – grein í byggiðn

Raki og mygla í húsum

Höfundar: Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir líffræðingur (Hús & heilsa, www.husogheilsa.is) og

Kristmann Magnússon byggingartæknifræðingur / húsasmíðameistari  (Mannvist & mannvirki)

Sjúkdómar þróast vegna flókins samspils erfða og umhverfis. Einn veigamesti umhverfisþáttur hér á landi er inniloftið þar sem við verjum mestum hluta lífsins innandyra við leik og störf en myglusveppur eða  mygla getur ógnað gæðum þess lofts.

Raki, mygla og heilsa

Myglusveppir eru hluti náttúrulegs umhverfis og eru mikilvægir við niðurbrot og endurnýjun næringarefna í náttúrunni. Menn, myglusveppir og bakteríur hafa lifað saman frá örófi alda og á meðan jafnvægi ríkir lifa allir saman í ,,sátt“. Ef jafnvægið raskast fer eitthvað úrskeiðis. Það á til dæmis við ef raki í byggingaefnum verður nægilegur til þess að mygla nái að vaxa upp í húsunum okkar.  Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (AHS/WHO) frá 2009 þá eru raki og mygla í byggingum áhættuþáttur heilsu manna. Tengslin eru þekkt en orsakasamhengið er ekki að fullu ljóst. Eftir vatnsskaða í byggingum verður uppsöfnun á efnum í innilofti frá örverum og byggingarefnum og loftgæði spillast. Má í stuttu máli nefna útgufun frá  byggingarefnum , bakteríur, geislabakteríur, smádýr, mítla og fjölmargar tegundir myglusveppa sem geta framleitt skaðleg eiturefni. Nýlega kom fram rannsókn frá Finnlandi sem fjallar einmitt um áhrif myglusveppaeiturs (mycotoxin),ákveðinnar tegundar myglusveppa, á samskipti fruma í taugakerfi og öndunarvegi.

Einkenni sem eru annað hvort sýnileg eða mælanleg eru frá öndunarfærum, tíðar sýkingar, meltingarfæraóregla og húðkvillar. Önnur einkenni sem erfitt er að mæla og meta eru sett undir eitt nafn, húsasótt. Á meðal þeirra  eru flenslík einkenni, þreyta, orkuleysi, þunglyndi, höfuðverkur, liðverkir, verkir, áreiti í augum, truflanir í ónæmiskerfi og önnur óútskýrð veikindi. Þegar talað er um húsasótt er átt við einkenni sem má tengja við veru í ákveðnu húsnæði. Eitt er þó ljóst að rannsóknir sýna að meiri líkur eru á heilsukvillum í röku húsnæði en þurru.

Í því liggja möguleikar til  forvarna og lýðheilsuðagerða í okkar samfélagi. Forvarnargildið er ótvírætt. Fyrirbyggjum leka,  minnkum áhættu af raka, lagfærum og stöðvum rakaupptök og fjarlægjum rök og mygluð byggingarefni. Þannig  lágmörkum við heilsufarslega áhættu af húsnæði. Til þess að ná árangri er mikilvægt að fagstéttir í heilbrigðis- og byggingageiranum beri saman bækur sínar og vinni að sameiginlegu markmiði.

Hvar finnst mygla?

Myglusveppir fjölga sér með gróum. Myglugró finnast alls staðar en myglan nær aðeins að vaxa þar sem gró finna hagstæð skilyrði til vaxtar. Fyrst og fremst þar sem er  raki og æti. Gró myglusveppa berast um allt með lofti, vatni og dýrum. Það er því óhjákvæmilegt að gró myglusveppa lendi inn í veggjum og undir gólfefnum þegar við erum að byggja húsin okkar eða breyta. Gróin liggja þar í dvala uns aðstæður breytast vegna leka eða rakaþéttingar og vaxa upp og mynda myglu. Myglusveppir eða mygla getur nýtt sér til ætis bæði ryk á gleri og í holrýmum steypu og getur því vaxið á ólíklegustu stöðum.

Flestir myglusveppir ná að fjölga sér hratt og verða grómyndandi innan tveggja sólarhringa. Þessi tími, 48 klukkustundir, er því sá viðbragðstími sem við höfum til þess að þurrka upp eftir vatnstjón og leka. Myglusveppagró og jafnvel mygla finnast án efa í einhverju magni í öllum húsum á Íslandi; þéttiefni við baðkar, gluggakarmar í snertingu við raka steypu og við rúður, en hún verður að vandamáli þegar rakaálag er eða hefur verið óeðlilega mikið. Þá geta komið fram einkenni húsasóttar og lífsgæði íbúa skerðast.

Hvernig þekki ég myglu?

Mygla sem vex á byggingarefnum er oft á tíðum keimlík þeirri myglu sem við þekkjum vel á brauðhleif eða sultu. En oftast er myglan ekki augljós við sjónræna skoðun enda þarf hún ekki sólarljós til þess að vaxa eins og plöntur og þrífst því vel innan í veggjum, undir gólfefnum,  á málningu eða veggfóðri. Hún getur haft marga liti; grá, svört, brún, hvít, gul, bleik, græn og jafnvel rauðbrún. Stundum er erfitt að aðgreina myglu frá útfellingu efna úr steypu og frá lími undir dúkum. Þumalputtareglan er sú að ef leki hefur verið til staðar lengur en í eitt stakt skipti eða viðvarandi  þá má reikna með að finna myglu og/eða bakteríur. Algengast er að finna slíkar aðstæður í spónaplötum, krossvið, lími undir dúkum, undir  málningu, í timbri, fúguefnum, þéttiefnum, veggfóðri, pappír og lími á gifsplötum. Auðvelt er að villast á myglu og mislitun vegna  bruna, efnaútfellingar, sandmengunar, olíusmits eða tjörulitunar.

Myglupróf

Ef ætlunin er að greina hvort  svartur eða grænn flekkur sé mygla eða eitthvað annað, er hægt að fá vísbendingu um það með prótín- eða mygluprófi. Allar tegundir ,,skyndi“ mygluprófa þarf þó að nálgast með aðgát. Prótínpróf geta gefið falska jákvæða niðurstöðu enda svara þau öllum prótínum, og niðurstaðan verður „jákvæð“ í öllum tilfellum eftir 10 mínútur. Fölsk jákvæð niðurstaða getur komið fram ef sýni er mengað með snertingu eða svarar öðrum prótínleifum. Þess vegna er mikilvægt að lesa af þeim innan þess tímaramma, menga það ekki og velja góðan sýnatökustað.  Mygluprófin sem greina ættkvíslir eða tegundir eru dýrari en eru gagnleg til þess að ákvarða ákveðnar ættkvíslir, en þau greina þó ekki allar tegundir og geta því sýnt neikvæða niðurstöðu þar sem er mygla.

Þegar prótín- eða myglupróf gefa jákvætt svar er samt ekki hægt að draga þá ályktun um að raka- og mygluvandamál sé til staðar í húsnæði. Það eru margir þættir sem geta haft áhrif á niðurstöðuna og mikilvægasta skrefið er að finna orsökina. Mikilvægt er að þekkja sögu hússins og hafa rakamæli sem mælir raka í byggingarefnum við raka- og mygluleit.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur ekki gefið út viðmiðunarmörk sem teljast heilsuspillandi á magni myglu eða tiltekið hvaða tegundir eru varasamari en aðrar.  Í leiðarvísi AHS  kemur fram að í heilsufarslegu tilliti skal koma í veg fyrir aðstæður þar sem rakasæknar örverur geta vaxið upp og fjarlægja mygluð og rakaskemmd byggingarefni þar sem myglu verður vart.

Lagfæring

Þegar húsnæði er lagfært með tilliti til raka eða myglu þarf að ákveða hver tilgangurinn er með lagfæringunum og hvert markmiðið er. Ef markmiðið er að minnka heilsufarslega áhættu þá gildir fyrst og fremst að stöðva rakaupptök, minnka rakaálag og fjarlægja mygluð byggingarefni.   Hreinsun með efnum, úðun eða þokun  ein og sér dugar ekki til árangurs. Við ranga meðhöndlun getur vöxtur myglunnar og/eða framleiðsla eiturefna  í sumum tilfellum aukist. Einföld þurrkun þar sem mygla er í vexti og lagfæring á rakavandamáli dugar heldur ekki. Mygla og afleiðuefni hennar geta valdið áreiti hvort sem hún er í dvala, dauð eða í fullu fjöri.

Ekkert efni eitt og sér dugar til þess að gera út af við mygluna að fullu og ennþá síður til þess að fjarlægja myglusveppaeiturefni, svo vitað sé. Til þess að ná árangri við hreinsun á myglu þarf að kynna sér vel verkferla og aðferðir við slíka framkvæmd. Þar sem myglan er á litlu svæði eða samtals innan við 0,1 fm, eins og til dæmis við rúður, í hornum á milli útveggja (kuldabrýr) og í þéttiefnum á baðherbergjum þarf fyrst að huga að því að minnka líkur á krosssmiti, hvaða hlífðarfatnaður henti og síðan hvaða efni og áhöld duga. Nauðsynlegt er að nota ryksugu með HEPA síu allan tímann á meðan framkvæmdir standa yfir til þess að koma í veg fyrir frekari dreifingu gróa og agna. Því næst er sýnileg mygla fjarlægð með því að bursta, hefla, slípa, skera eða fjarlægja til dæmis málningu eða þéttefni. Að lokum er svæðið hreinsað vel og þá jafnvel með sótthreinsiefnum sem eru ekki ertandi fyrir íbúa. Húseigendur geta yfirleitt framkvæmt slíka hreinsun sjálfir ef þeir fá góðar leiðbeiningar, hafa réttan útbúnað og efni. Hægt að er að nálgast leiðarvísi um hreinsun á litlu svæði og hvernig megi draga úr raka á vef Umhverfistofnunar graenn.is. Við stærri verkefni er mælt með að fagmenn sem þekkja til myglu vinni verkið.

Hvað get ég gert?

Fyrst og fremst þarf að tryggja stöðug loftskipti, fylgjast með loftraka innandyra, þurrka upp vatn við rúður ef þær „gráta“ og bregðast hratt og örugglega við vatnstjónum. Húseigendur þurfa ekki síður að sinna viðhaldi og gott er að hafa í huga að engin byggingarefni eru viðhalds- eða myglufrí. Forvarnir gegn slæmum loftgæðum innandyra felast meðal annars í því að opna glugga, tryggja loftskipti, velja rétt byggingarefni og málningu og síðast en ekki síst, halda húsum þurrum.

Myglustimpill

Í langflestum tilfellum er hægt að lagfæra raka- og mygluvandamál. Í þeim tilfellum þar sem rétt er staðið að framkvæmdum þarf verðmæti fasteignar ekki að rýrna. Þar sem viðhaldi hefur verið sinnt og brugðist hefur verið við rakavandamálum má síður reikna með myglusveppum í vexti. Þegar raka- og mygluvandamál koma upp í húsnæði er því mikilvægt að skrásetja, geyma myndir og fylgja verkferlum við framkvæmdir. Þar sem má reikna með að öll hús leki einhvern tíma á líftíma sínum er það síst til að rýra verðmæti ef eigandi hefur látið skoða húsnæðið og brugðist við. Fasteignakaup væru sanngjarnari fyrir alla aðila, auðveldari og árangursríkari ef kaupandi gæti kynnt sér ástand, sögu eignar, skýrslu um viðhald, framkvæmdir, hönnun og galla sem hafa komið upp.

Hver borgar?

Finnar hafa komist að því að lagfæring hvers  ,myglusveppa tjóns þar í landi kosti 1-6 milljónir íslenskra króna. Á hverju ári er kostnaður finnska hagkerfisins áætlaður um 450 milljónir evra. Umreiknað og yfirfært á íslenskar aðstæður væri kostnaður íslenska hagkerfisins um 4,5 milljarðar á ári. Þar gefst almenningi kostur á að sækja um styrk til þess að lagfæra heimili sín því að í heilsuhagfræðilegu tilliti, er það talið að það borgi sig að styrkja fólk til viðgerða frekar en að enn frekari kostnaður færist yfir á heilbrigðiskerfi eða í formi annarra styrkja vegna vinnutaps og veikinda. Í finnsku rannsókninni sem er nefnd hér að framan kemur einmitt fram að eina leiðin til þess að minnka einkenni og skerða ekki lífsgæði sé að lækna umhverfi.

Staðan á Íslandi

Ekki má búast við að byggingar á Íslandi séu með minni raka og myglu en önnur lönd í sambærilegu loftslagi, þar sem myglu og rakavandamál eru í 5-50% bygginga. Spurningalistakannanir Evrópusambandsins (EUSILC) gefa til kynna að vandamálið sé jafnvel stærra hér en í löndum Skandinavíu.

Engin nýleg rannsókn er þó til um raunverulegt ástand hérlendis með tilliti til raka og áhættuþátta í húsnæði, byggingargerð eða byggingartíma og brýnt að það sé kannað. Einnig þarf að kanna ástand á þeim byggingarefnum sem eru í boði, hvernig þau eru geymd í verslunum eða á byggingarstað og hvort að raki komist í þau áður en byggingum er lokað fyrir veðri og vindum. Mikilvægt er því að þeir sem eru meta fasteignir og viðgerðir með tilliti til raka og myglu kynni sér málið frá öllum hliðum, jafnt byggingarfræðilegum, líffræðilegum sem og heilsufarslegum á faglegum grunni.

Forvarnir

Hlutverk bygginga er að hýsa fólk, veita þeim athvarf og skjól  en mikilvægt að skerða ekki lífsgæði, því  þarf að taka tillit til íbúa og lífsgæða þeirra við hönnun, uppbyggingu, viðhald og í matsferli. Velja þarf rétt og hentug efni í hverju tilfelli, til dæmis í votrými, þök og útveggi með það að markmiði að þau haldist þurr. Þá þarf að taka með í reikninginn rakaálag, rakaþéttingu og rakastreymi í byggingunni. Áhrifaþættir eru því hönnun, val á byggingarefnum, byggingarhraði og byggingarraki, frágangur í votrýmum, aldur húsa og viðhald. Byggingarefni mega heldur ekki verða blaut á byggingartíma eins og fyrr er getið. Að lokum má nefna að lífshættir íbúa skipta máli og nauðsynlegt er að íbúar þekki mikilvægi loftskipta og viðbrögð við vatnstjónum. En íbúar geta sjaldan  komið í veg fyrir raka og myglu í húsnæði sem er illa hannað, byggt eða viðhaldið. Forvarnargildi í því að hanna og byggja húsin okkar með þessu tilliti er því gífurlegt.

100Yfir 100 fjölskyldur flýja heimili sín
wordpress