Svona ráðast stjórnvöld gegn mygluvandanum

Sem kunnugt er hefur heilsuspillandi myglusveppur náð að grassera á fjölda heimila hér á landi; bæði í nýbyggðum húsum og gömlum. Sumir verða viðkvæmir fyrir myglunni, fá öndunartruflanir og útbrot og þurfa jafnvel að losa sig við búslóðina vegna þess að hún er orðið sýkt af myglugróum. Fjölmörg dæmi eru um tjón af völdum myglu sem ekki fást bætt úr tryggingum.

Tillögur og tilmæli til stofnana og ráðuneyta

Starfshópur umhverfis- og auðlindaráðuneytisins skilaði tillögum í mars í fyrra og í nóvember hófst vinna við að hrinda þeim í framkvæmd. Niðurstaða hópsins var í megindráttum að röng vinnubrögð við hönnun og mannvirkjagerð, vanræksla á viðhaldi og röng notkun á húsnæði virtust vera helstu orsakir raka- og mygluvandamála. Tækifæri til úrbóta fælust helst í aukinni fræðslu, leiðbeiningum, menntun fagaðila og auknum rannsóknum sem leitt gætu til bættra vinnubragða og byggingaraðferða. Samkvæmt upplýsingum úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er sumt á verksviði annarra ráðuneyta og stofnana.

Skylt að upplýsa um myglu

Tillögu starfshópsins um breytingu á húsaleigulögum var beint til Velferðarráðuneytisins en lagt var til að skylda leigusala til að upplýsa leigutaka um mygluvandamál sem upp hafa komið. Þá verði fagaðili tilnefndur í lögum til að annast úttekt á leiguhúsnæði þar sem mygla veldur vandræðum.

Eigendaskiptatrygging næði til raka og myglu

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur verið bent á að skoða hvort rétt sé að koma á eigendaskiptatryggingu að danskri fyrirmynd. Einnig hvort breyta eigi lögum þannig að seljanda fasteignar sé skylt að upplýsa um það hvort lokaúttekt hafi farið fram.

Áhersla á byggingareðlisfræði og varnir gegn raka

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur verið bent á að þarft sé að auka áherslu á byggingareðlisfræði í námi mannvirkjahönnuða og að ákveðinn grunnur í byggingareðlisfræði verði kenndur í iðnnámi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur komið þessum ábendingum á framfæri við starfsgreinaráð bygginga- og mannvirkjagreina og framhaldsskóla sem kenna byggingagreinar.

Bætt vinnubrögð, eftirlit og leiðbeiningar

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið bað Mannvirkjastofnun meðal annars um að afla upplýsinga um fjölda myglutjóna þar sem tryggingabætur hafa verið greiddar út. Í kjölfarið mun ráðuneytið meta hvort rétt sé að endurskoða starfsábyrgðatryggingu hönnuða og byggingarstjóra og kanna möguleika á sérstakri byggingargallatryggingu að danskri fyrirmynd. Í gögnum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kemur fram að hún gæti gefið góða vernd þrátt fyrir að hafa reynst dýr. Þá ætlar ráðuneytið að gera breytingar á hollustuháttareglugerð til að gera orðalag hennar skýrara með tilliti til myglu.

Ráðuneytið óskaði einnig eftir því við Mannvirkjastofnun að hún beindi því til byggingarfulltrúa að þeir legðu aukna áherslu á að kröfur um þök og drenlagnir yrðu uppfylltar. Skoðunarhandbækur yrðu notaðar til að samræma og vanda byggingareftirlit og að stofnunin setti verklagsreglur um viðbrögð við brotum fagaðila í mannvirkjagerð.

Þá hefur því verið beint til bæði Mannvirkjastofnunar og Umhverfisstofnunar að auka fræðslu og leiðbeiningar til fagaðla og ekki síður almennings enda geta mygluvandamál komið upp vegna rangrar notkunar á húsnæði.

Mynd með færslu
RÚNAR SNÆR REYNISSON
Fréttastofa RÚV
wordpress