Af hverju þekkja ekki allir læknar þessi tengsl á milli raka í húsnæði og heilsufarseinkenna?

Það eru innan við 10 ár, eða árið 2009, síðan að Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) gaf út tilskipun varðandi raka í húsnæði sem áhættuþátt heilsu. Það tekur oft mjög langan tíma áður en að læknasamfélagið tileinkar sér niðurstöður rannsókna. Í mörgum tilfellum tekur það mörg ár. Það tók til dæmis mörg ár að viðurkenna heilsuspillandi áhrif tóbaks. Enda er okkur öllum nauðsynlegt að góður grunnur og reynsla sé fyrir hendi áður en að vísindasamfélagið samþykkir eða viðurkennir niðurstöður rannsókna.

Fjölmargir læknar hafa tileinkað sér þessar rannsóknir um allan heim. Þar sem þessi áhrif eru víðtæk og flókin getur liðið langur tími áður en að áhrifin verði fullljós. Ennþá eru þessar rannsóknir á frumstigi. Flestar eru þessar rannsóknir faraldsfræðilegar þar sem erfitt er að gera beinar tilraunir á fólki.

Það sem einkum vefst fyrir vísindamönnum er að finna einhver viðmiðunarmörk eða mælanleg áhrif þessara lífrænu eiturefna eða efnasúpu, sem verður til í rökum byggingum, á líkamann við innöndun. Síðan þessi heimasíða var opnuð í byrjun árs 2006 hafa orðið miklar breytingar á vitneskju og meðvitund almennings og starfsmanna í heilbrigðiskerfinu um mikilvægi heilnæms innilofts í híbýlum.

Það eru nú þegar margir læknar á Íslandi sem hafa kynnt sér þessi mál. Vandinn er að meðferðarúrræði eru takmörkuð og miðast einkum við meðhöndlun á einkennum. Mikilvægasta meðferðin er að forðast þær aðstæður þar sem einkenni vakna.

wordpress