5 hollráð Húss og heilsu

5 hollráð sem allir húseigendur ættu að þekkja

Síðustu misseri hefur mygla verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu. Myglusveppir eru nauðsynlegir í náttúru okkar en fæstir vilja búa undir sama þaka og þessi vágestur. Hér að neðan verða talin upp nokkur hollráð sem húsráðendur þurfa að vita til að lágmarka vöxt á myglu innandyra á heimilum, sem líffræðingurinn Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, fagstjóri hjá EFLU verkfræðistofu tók saman.

Sylgja bendir á að myglugró sem er loftborin og finnast víða lenda oft undir gólfefnum, innréttingum, innan í sökklum, veggjum og þaki. Þar bíða gróin átekta þar til að þau fá nægilegan raka til þess að vaxa upp í myglu.

Gró þurfa mismunandi aðstæður og rakamagn til þess að verða að myglusvepp, það fer eftir tegundum.

Mikilvægt að halda niðri loftraka

Sylgja segir nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því að svo lengi sem við notum vatn í okkar búskap má búast við að einhvers staðar nái að myndast mygla. Sem dæmi má nefna í þéttiefni í kringum bað eða sturtur, í niðurföllum, meðfram rúðum,  svo eitthvað sé nefnt.

Loftraki er ekki alls ráðandi um hvort að mygla nái að vaxa eða ekki, en með því að halda niðri loftraka náum við að minnka líkur á rakaþéttingu á köldum flötum.

Rakinn í byggingarefnum eins og ef gipsplötur blotna eða rör leka innan í vegg kemur einungis fram á sérstökum snerti- eða efnisrakamælum og hefur ekki endilega áhrif á loftraka. Mygla nær að vaxa upp þar sem tiltækur raki er í nægilegu magni í byggingarefni í nægilega langan tíma, eins og til dæmis er til staðar eftir vatnstjón eða viðvarandi leka.

Hér að neðan má finna nokkur hollráð fyrir húseigendur og íbúa:

1.       Svona kemur þú í veg fyrir rakasöfnun og leka

Gott viðhald og eftirfylgni t.d. með ástandi lagna, útveggja, glugga, þakrenna og þaks. Fylgjast með loftraka innandyra.

2.      Það er nauðsynlegt að þurrka strax upp allt vatn og allan raka

Bregðast við vatnstjónum. Opna inn í byggingarhluta og hefja þurrkun eins fljótt og mögulegt er. Venjulega er það til lítils árangurs gegn myglu að láta þorna án frekari afskipta.

Þurrka upp raka við rúður og vatn eftir bað og sturtuferðir.

3.      Loftskipti eru gríðarlega mikilvæg

Til þess að minnka uppsöfnun á raka, efnum og gróum innandyra er mælt með því að skipta um loft innandyra reglulega. Opna glugga, helst upp í vind og láta gusta í gegnum húsnæðið.

4.      Þrif

Þar sem ryk nær að liggja fyrir og raki þéttist eða  vatn lekur eru meiri líkur á að mygla nái að vaxa upp og nýta sér ryk sem æti.

Því lakari sem þrif eru því meira magn af loftbörnum ögnum í innlofti, ryk, gró og aðrar agnir.

5.      Ryksuga

Öll heimili ættu að eiga ryksugu með HEPA síu, helst H12 eða H13. Tilgangur þessarar síu er að fanga agnir af þeirri stærð sem geta borist niður í lungu og valdið ertingu. Gró og sumar rykagnir eru einmitt af þessari stærð. Þessar agnir eru ekki sjáanlegar. Þessar síur fást í flestar ryksugur.

Í næsta pistli munum við fjalla betur um innivist og efnisval.

Geta ný hús staðið úti ?
Fundað um Korpuskóla
wordpress